Svavar Guðnason (1909-1988) Íslandslag, 1944 Olía á striga, 88 x 100 cm
Svavar Guðnason (1909-1988) Íslandslag, 1944 Olía á striga, 88 x 100 cm

Þegar Svavar Guðnason sýndi verk sín í Listamannaskálanum
í ágúst 1945, eftir að hafa orðið innlyksa í Danmörku í seinni heimsstyrjöldinni, orkaði sýningin eins og stormsveipur í reykvísku menningarlífi, ólgandi af nýjabrumi. Myndlistarferill
Svavars hafði þá einkennst af ævintýralegri grósku og umsvifum á norrænum framúrstefnuvettvangi. Í Listamannaskálanum voru verk frá síðustu átta árum, málverk, vatnslitamyndir og krítarteikningar, sem báru með sér að listamaðurinn hafði lifað átakatíma í listrænum og tilvistarlegum skilningi. Í Danmörku starfaði hann í kraftmiklum félagsskap framsækinna listamanna er kenndu sig við Høst og Helhesten og beittu sér fyrir listrænni nýsköpun og frjálsri, óheftri tjáningu í skugga hernáms og ógnarvalds.

Málverkið En Islænding og hans land, sem Svavar málaði 1944, ber þess merki að hugurinn hefur leitað heim við lýðveldisstofnunina.

...