Kristinn Már Stefánsson, fyrrverandi landsliðsmaður og landsliðsþjálfari í körfuknattleik, lést sl. föstudag á Hjúkrunarheimilinu Sóltúni eftir veikindi, 79 ára að aldri.

Kristinn fæddist í Reykjavík 3. júní 1945, ólst upp í Vesturbænum en ættaður frá Seyðisfirði og úr Borgarfirði. Foreldrar Kristins voru þau Steinunn Kristín Þórarinsdóttir og Stefán Hannesson.

Gekk Kristinn í Melaskóla, Hagaskóla og Verslunarskólann. Starfsferill hans hófst hjá Stálsmiðjunni en hann starfaði nánast alla starfsævina sem bókari.

Þekktastur er Kristinn fyrir afskipti sín af körfuknattleiknum. Hannes S. Jónsson formaður KKÍ orðaði það þannig við Morgunblaðið í gær að karfan hefði verið líf og yndi Kristins. Hann hefði enn verið mjög áhugasamur um íþróttina á efri árum og viljað leggja gott til mála.

...