— AFP/Patricia De Melo Moreira

Þúsundir slökkviliðsmanna hafa barist við gróðurelda í Portúgal undanfarna daga. Um tíu eru sagðir hafa týnt lífi í hamförunum og á fimmta tug eru slasaðir, þ. á m. yfir 30 slökkviliðsmenn.

Veðuraðstæður eru sagðar afar óhagstæðar til slökkvistarfa, þurrt í veðri og vindasamt. Slíkt eru kjöraðstæður til að skapa mikinn eldsmat á skömmum tíma.

Eldarnir kviknuðu fyrst um síðustu helgi og virðast hafa náð hámarki sínu síðastliðinn mánudag.

Auk manntjóns greina fréttamiðlar í Portúgal frá talsverðu eignatjóni í tengslum við eldana, en mannvirki á borð við íbúðarhús, verksmiðjur og lagerhúsnæði hafa farið illa. Mikil áhersla er þó lögð á að vernda byggingar. Á meðfylgjandi mynd má sjá slökkviliðsmann við rústir vöruhúss.