— Morgunblaðið/Eyþór

„Undirbúningsnefndin hét því að halda aldrei aftur upp á 90 ára afmæli mitt,“ segir Sveinn Einarsson, fv. þjóðleikhússtjóri með meiru, en fjölmenn móttaka var haldin í Borgarleikhúsinu á 90 ára afmæli hans í gær.

Vísar Sveinn til sögu af ömmusystur sinni sem hélt upp á 95 ára afmæli sitt í Vík um árið. Var mikil og góð gleði, enda konan vinsæl meðal heimamanna. Daginn eftir veisluna átti hún fund með prestinum, sem fór að fletta eitthvað í kirkjubókum. Kom þá í ljós að hún var 94 ára og haldið var aftur upp á 95 ára afmælið síðar.

Sveinn segir móttökuna hafa verið óhefðbundna; harmonikkuleikur á hlöðuballi, leikarar stigu á svið og hann flutti ræðu. Leysti hann gesti út með nýrri bók sinni, Þú ert mitt sólskin.