En viðbragðsaðgerðir Mossads voru ótrúlegar. Á sama tíma sprungu símtæki af smærri gerðinni, sem hinir og þessir menn voru með í vasa sínum, þar sem tekin hafði verið ákvörðun um það, að tilteknir hópar manna í Líbanon skyldu ekki ganga með venjulega síma í vösum sínum, því að ljóst væri orðið að Ísraelsmenn ættu orðið auðvelt með að rekja öll slík samtöl.
Eyðibýli í Húnavatnssýslu
Eyðibýli í Húnavatnssýslu — Morgunblaðið/Árni Sæberg

Atburðirnir fyrir „botni Miðjarðarhafsins“ taka á sig margbreytilegar, einatt dapurlegar og stundum næsta ótrúlegar myndir. Þær síðustu af því tagi sem birtust okkur hefðu þótt vera með heldur betur hæpna frásögn, hefðum við horft á þær sem brot úr mynd um „James Bond“ eða ímyndaða óvini hans, sem einskis svífast, eða aðra slíka, þar sem hugmyndaflug framleiðendanna hefði farið mjög langt fram úr öllu sem menn þekkja eða geta með sæmilegri samvisku keypt, eitthvað sem væri ekki handan við boðleg mörk. Að minnsta kosti má segja að myndin sú hafi verið orðin hreinn hugarburður, og þar með ótrúverðugur og óboðlegur, og farin að líkjast mest einhvers konar framúrstefnumynd um eitthvað sem hefði verið framleitt með atbeina gervigreindar sem kynni sér engin takmörk, sem einmitt mun vera einkenni slíkra fyrirbæra.

Var þetta bara bíó?

...