Víkin Jelena Tinna Kujundzic og Bergþóra Sól Ásmundsdóttir.
Víkin Jelena Tinna Kujundzic og Bergþóra Sól Ásmundsdóttir. — Morgunblaðið/Eyþór

Möguleikar Þróttar á að ná einu af fjórum efstu sætum Bestu deildar kvenna í fótbolta eru endanlega úr sögunni eftir jafntefli gegn Víkingi, 1:1, í Reykjavíkurslag í Fossvoginum í gærkvöld.

Hulda Ösp Ágústsdóttir kom Víkingi yfir eftir fyrirgjöf Emmu Steinsen og allt stefndi í sigur liðsins. En undir lokin jafnaði 16 ára varamaður, Þórdís Nanna Ágústsdóttir, fyrir Þrótt þegar markvörður Víkings skaut boltanum í hana og þaðan í netið.

Um leið er ljóst að Víkingur verður í einu af fjórum efstu sætunum, sem verður besti árangur félagsins frá upphafi. Áður náði liðið fimmta sæti 1982 og 1983.

Í lokaumferðunum berst Víkingur við Þór/KA um þriðja sætið en Þróttur við FH um fimmta sætið. Víkingur á eftir að mæta Val og svo Þór/KA á Akureyri í lokaumferðinni. Þróttur á eftir Þór/KA og FH.