Hverjir gæta gæslumannanna?

Lögregla á Norðurlandi eystra rannsakar enn stuld á síma árið 2021, meðan eigandinn lá meðvitundarlaus á sjúkrahúsi, en gögn af símanum rötuðu svo í tvo fjölmiðla, Kjarnann og Stundina.

Það er þó ekki fjölmiðlaþátturinn, sem lögregla rannsakar, heldur einfaldlega stuldurinn á símanum og meðferð og deiling persónulegra gagna af honum. Samkvæmt greinargerð saksóknara liggur fyrir hver tók símann og jafnframt virðist hafa komið honum til Ríkisútvarpsins (Rúv.), en óljósara hvernig gögnin bárust til hinna miðlanna tveggja.

Við rannsóknina hafa nú fimm blaðamenn fengið stöðu sakborninga, en þeir neita að tjá sig um málavöxtu til varnar heimildarmanni. Blaðamönnum ber að verja heimildarmenn, en vafamál hvort það eigi við þegar lögreglu er kunnugt um hver hann er og rannsakar ekki þann þátt málsins.

...