— Morgunblaðið/Árni Sæberg

Starfsmenn Vegagerðarinnar unnu við það í vikunni að skipta út ónýtum vegstikum á Holtavörðuheiði og setja niður nýjar með þar til gerðri vél.

Skipta þarf reglulega um stikur sem fara jafnan illa í snjómokstri að vetri til, eða skemmast af öðrum völdum. Stikurnar eru mikilvægt öryggistæki fyrir vegfarendur en umferð yfir heiðina er jafnan mjög mikil. Svonefndar snjóstikur krefjast einnig viðhalds og endurbóta en þær eru í vegkanti þar sem mestu snjóþyngslin eru á leiðinni.

Nú er rétti árstíminn til að ráðast í framkvæmd sem þessa, áður en vetur konungur bankar á dyrnar og moka þarf heiðina á ný. Stikurnar eru jafnframt mikilvægar í mikilli þoku, sem kemur oft upp á Holtavörðuheiði.