— Morgunblaðið/Hari

Flugeldasýningar Vals komu til umræðu á síðasta fundi íbúaráðs Miðborgar og Hlíða.

Félagið hefur það til siðs að fagna hverjum unnum bikar með flugeldasýningu og hefur þetta valdið hræðslu gæludýra í nágrenni við Hlíðarenda.

Á fundinum lagði fulltrúi íbúasamtaka þriðja hverfis, Sigfús Ómar Höskuldsson, fram bókun sem hófst á þessum orðum:

„Í Hlíðahverfinu er öflugt íþróttafélag, íþróttafélag sem er stolt hverfisins og þó víðar væri leitað. Téð íþróttafélag hefur lagt mikla rækt við íþróttastarf byrjenda og eins stutt veglega við íþróttastarf þeirra sem komin eru á efri ár. Því kemur það alltaf jafnmikið á óvart þegar íþróttafélagið, sem hefur unnið til margra titla síðustu ár, fagnar sínum árangri með flugeldum í hvert sinn er bikar er í húsi.“

...