Tveir karlmenn um tvítugt voru í gær úrskurðaðir í áframhaldandi gæsluvarðhald til 17. október í Héraðsdómi Reykjaness. Í tilkynningu lögreglu segir að mennirnir séu grunaðir um fjölda brota, þar á meðal nokkur rán á höfuðborgarsvæðinu í ágúst.

Fyrr í mánuðinum greindi mbl.is frá því að lögreglan væri að rannsaka nokkur mál er varða hótanir, líkamsmeiðingar, rán og ofbeldi í garð drengja í Hafnarfirði.

Sagði Sævar Guðmundsson aðalvarðstjóri þá að mennirnir væru grunaðir um nokkur alvarleg brot á mismunandi tíma.