— AFP/Yuichi Yamazaki

Flóð og skriður hafa orðið einum að bana á Noto-skaga, á miðvestanverðu Japan. Auk þess er ellefu manns saknað. Náttúruhamfarirnar eru enn annað áfallið fyrir íbúa á Noto-skaga, sem var skekinn af afar mannskæðum jarðskjálfta fyrr á árinu.

„Fordæmalaust“ rigningarveður herjaði á svæðið á laugardag að sögn japönsku veðurstofunnar. Rigningin hefur víða lagt landsvæði í auðn og skilið eftir sig mikla drullu. Mestra áhrifa gætir m.a. í borginni Wajima á miðvestanverðri meginlandseyjunni.

Í gær sást til fólks vaða í gegnum aurinn til að moka undan bílum sínum. Annars staðar náði regnið nánast að kaffæra byggingar sem voru sérstaklega reistar fyrir fólk sem missti heimili sín eftir að stór jarðskjálfti skók jörð á nýársdag en þá létust 318 manns.