Nú er engu líkara en að beðið sé eftir því að vandamál barna á biðlistum verði þyngri í vöfum. Það gengur ekki. Við getum gert betur.
Gunnar Hrafn Birgisson
Gunnar Hrafn Birgisson

Gunnar Hrafn Birgisson

Á Íslandi tíðkast að setja börn á biðlista sem eiga í vanda vegna þroska, hegðunar eða vanlíðunar. Þeir listar geta seinkað nauðsynlegri hjálp jafnvel árum saman þannig að vandinn hjá börnum og fjölskyldum fari með tímanum versnandi. Umboðsmaður barna og fleiri hafa ötullega gagnrýnt ástandið með biðlistana og lagt til úrræði (sjá heimildir 1-4), en fengið fá svör og lítið gerist. Þetta er auðvitað óásættanlegt, sérstaklega þegar afleiðingar eru alvarlegar og skjót inngrip gætu í mörgum tilfellum leyst úr málum. Greiðar úrlausnir svona mála hafa mikilvæg jákvæð áhrif á líf fólks og geta hamlað gegn því að síðar komi fram stærri vandi, t.d. sjálfsskaði, ofbeldi eða fíknir.

Biðlistar eru ekki hlutlaust ástand heldur hafa þeir streituáhrif. Foreldra óar við þeim. Bið upp á von og óvon er erfið. Við slíka óvissu dvína vonir.

...