Fjögur voru úrskurðuð í gæsluvarðhald fram á föstudag í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær í þágu rannsóknar lögreglu á innbrotum í tvær verslanir Elko sem voru framin aðfaranótt laugardags á sunnudagskvöld. Miklum verðmætum var stolið.

Í tilkynningu frá lögreglu er rannsóknin sögð umfangsmikil en þrír til viðbótar eru í haldi vegna málsins. Þá hefur lögregla gert húsleit og lagt hald á tvö ökutæki.

Fjórmenningarnir voru handteknir á höfuðborgarsvæðinu og á Keflavíkurflugvelli. Lögreglan hefur ekki ákveðið hvort hún muni fara fram á gæsluvarðhald yfir hinum þremur. Allir hinna sjö handteknu eru erlendir ríkisborgarar.

Tilkynning um málin barst lögreglu á mánudagsmorgun. Brotist var inn í verslanir Elko í Skeifunni og Lindum. Höfðu innbrotsþjófarnir fjölda farsíma á brott með sér.

...