Fjölskyldan Frá vinstri: Anna, Lilja, Sigfinnur, Mikael, Valborg og Ólafur.
Fjölskyldan Frá vinstri: Anna, Lilja, Sigfinnur, Mikael, Valborg og Ólafur.

Mikael Jónsson eða Mikki eins og hann er kallaður í daglegu tali fæddist á loftinu í Skaftfelli á Seyðisfirði 28. september 1934. Hann bjó svo um tíma á Fossgötu 5 og deildi herbergi með Sigga Júlla sem átti þá heima þar með sínu fólki. Mikki Jóns og Siggi Júlla urðu síðar meir áberandi karakterar í atvinnulífinu á Seyðisfirði.

Mikki eyddi æskuárunum mikið í sveitinni hjá ömmu Ólínu og Guðmundi afa í Hróarstungu. Hann var þar langtímum saman þegar mamma hans og pabbi voru á vertíð og gekk þá í skóla í Húsey. Hann sá um að sækja kýrnar langar leiðir og var oft hræddur í myrkrinu. Þegar hann komst á unglingsaldurinn, kannski um 15 ára, þá fór hann að fara með foreldrum sínum á vertíð en þar bjuggu þau á verbúð. Oft fóru foreldrar hans ekki á sömu vertíð og bjuggu þá ekki saman en Mikki fór þá með pabba sínum. Þegar Lúlla systir Mikka var orðin nógu stór var hún líka tekin með á vertíð.

...