Karl Guðmundsson
Karl Guðmundsson

Í tilefni þess að í ágúst sl. voru liðin 100 ár frá fæðingu Karls Guðmundssonar, leikara og þýðanda, ­stendur Leikfélag Reykjavíkur (LR) fyrir dagskrá honum til heiðurs á Litla sviði Borgarleikhússins á morgun, sunnudag, kl. 14. Leikarar LR sem og leikkonan Camille Marmié, sem er barnabarn Karls, lesa úr leikritaþýðingum hans og Kjartan Ragnarsson segir frá kynnum sínum af Karli og samstarfi við hann.

Karl lauk leiklistarnámi við Royal Academy of Dramatic Arts 1952 og starfaði nær allan sinn feril hjá Leikfélagi Reykjavíkur. Á rúmlega 40 ára ferli sínum lék hann hátt í 100 hlutverk. Hann þýddi tugi leikrita, m.a. eftir Molière, Aristófanes, T.S. Eliot og Martin McDonagh, en verk þess síðastnefnda, Fegurðardrottning frá Línakri, var það síðasta sem Karl þýddi sérstaklega fyrir LR árið 1999. Aðgangur er ókeypis.