Helga Mogensen, matarfrömuður og frumkvöðull, lést sunnudaginn 29. september á líknardeild Landspítalans í Kópavogi, 70 ára að aldri.

Helga fæddist á Selfossi 12. apríl 1954 en flutti til Reykjavíkur á unglingsaldri. Foreldrar hennar voru Helge Mogensen mjólkurbúfræðingur og Þórunn Málfríður Jónsdóttir kaupmaður.

Helga bjó um árabil í Danmörku þar sem hún kynntist og tileinkaði sér grænmetisfæði sem og jógaiðkun sem hún stundaði reglulega og kenndi. Auk þess lærði hún þar óhefðbundnar lækningar. Á níunda áratugnum fór hún til frekara náms í jógafræðum og iðkun á Kripalu-jógastöðinni í Massachusetts í Bandaríkjunum og opnaði seinna jógastöðina Heimsljós ásamt vinum hér heima á Íslandi, og kenndi síðar víða jóga, þar á meðal í Kramhúsinu.

Helga var í hópi helstu brautryðjenda á sviði uppbyggingar og reksturs grænmetisveitingastaða í Reykjavík og má í því samhengi nefna veitingastaðinn Á næstu grösum sem hún ásamt vinum opnaði árið 1978 og rak um árabil, og

...