Klerkastjórnin kastar grímunni

Íransstjórn skaut í gær 180 langdrægum eldflaugum að Ísrael, en hver þeirra gæti borið kjarnorkusprengju, sem klerkaveldið hefur lagt svo mikið í sölurnar til að eignast, gagngert til þess að „stroka Ísrael út af landakortinu“.

Öflugar eldflaugavarnir Ísraelsmanna og bandamanna þeirra virðast hafa grandað flestum eldflauganna, en þegar þetta er ritað er aðeins vitað um einn mann sem féll í árásinni, Palestínumann á Vesturbakkanum.

Ísraelsmenn segjast munu svara árásinni, en að þeir sjálfir velji stað og stund til þess. Svarið muni sýna Írönum hernaðarmátt Ísraels, það verði bæði óvænt og nákvæmt.

Þessa stórfelldu en misheppnuðu eldflaugaárás Íransstjórnar ber að fordæma harðlega. Í henni felst stigmögnun átaka í þessum viðkvæma heimshluta, sem hæglega geta breiðst út.

...