— Morgunblaðið/Eyþór

„Þetta fór frábærlega vel fram, Ásmundur [Einar Daðason] barnamálaráðherra mætti og er búinn að bjóða krökkunum á fund til að ræða þetta betur,“ segir Emelía Antonsdóttir Crivello, skóla- og verkefnastjóri Borgarleikhússins, um óvenjulegan blaðamannafund sem þar var haldinn í gær. Blésu börn til fundarins og kynntu þar niðurstöður Krakkaþings í apríl og komust þar einróma að þeirri niðurstöðu að leikhús breytti lífum. Spurð hvort ungviðið hafi sótt hart að ráðherra og látið hann heyra það svarar Emelía því til að börnin hafi hreyft við öllum í salnum. „Fólk var hrært og með tárin í augunum vegna þess að krakkarnir voru að tala frá hjartanu og sögurnar þeirra voru svo dýrmætar,“ segir Emelía.