Ísland skipar sér í hóp Evrópuþjóða þar sem tungumálanám í grunnskólum er hvað algengast. Samkvæmt samanburði Eurostat, hagstofu Evrópusambandsins, er hlutfall nemenda á Íslandi í yngri bekkjum grunnskóla (1. til 6. bekk að jafnaði), sem lærðu tvö eða fleiri erlend tungumál á árinu 2022, 25,3%. Sex lönd eru fyrir ofan Ísland en 21 land fyrir neðan.

Að meðaltali læra 6,5% barna á þessum aldri í löndum ESB erlend tungumál en hlutfallið er þó mjög mismunandi eftir löndum. Skv. Eurostat hefur færst í vöxt á seinustu árum í meirihluta Evrópulanda að nemendur stundi málanám í grunnskóla.

Í efri bekkjum grunnskóla, á unglingastiginu, er Ísland meðal fjögurra efstu þjóða þar sem 97,7% íslenskra nemenda eru í málanámi. Kemur Ísland fast á hæla Finna (98%) en í Liechtenstein og Norður-Makedóníu er hlutfallið 100%. omfr@mbl.is