Elísabet Jónsdóttir fæddist í Reykjavík 31. október 1941. Hún lést á Landspítalanum í Fossvogi 24. september 2024.

Foreldrar hennar voru hjónin Jón V. Guðjónsson, f. 15. nóvember 1922, d. 27. desember 2012, og Gyða Valdimarsdóttir, f. 31. október 1922, d. 15. janúar 1998. Elísabet var elst þriggja systkina. Eftirlifandi eru Guðjón og Hafdís.

Elísabet giftist Sigurði Rafni Bjarnasyni lyfjafræðingi þann 15. júní 1960. Þau skildu. Saman eignuðust þau þrjú börn. Þau eru: Hildur, f. 5. september 1958, d. 6. september 1958; Bjarni, f. 1. júlí 1964, og Kristín, f. 25. júní 1986. Maki Bjarna er Ingibjörg Gunnlaugsdóttir og börn þeirra eru Arna og Sigurður Þór. Eiginmaður Örnu er Gunnar Þór Dagsson. Unnusta Sigurðar Þórs er Sara Gunnarsdóttir.
Sambýlismaður Kristínar er Vignir Már Eiðsson. Kristín á soninn Darra Bergmann Davíðsson. Sambýliskona hans er Katarina Kurko.

Elísabet giftist öðrum manni sínum 26. október 1969, Magnúsi Sveinssyni rafvirkja, f. 28. júlí 1939, d. 6. janúar 2024, þau skildu.

Elísabet giftist þriðja manni sínum 6. janúar 1973, Theódóri A. Jónssyni, f. 28. júní 1939, d. 7. maí 1989, formanni Sjálfsbjargar.

Elísabet var gjarnan kölluð Bessý. Hún eignaðist sitt fyrsta barn aðeins sextán ára gömul. Telpan var með hjartagalla og lifði aðeins í rúman sólarhring. Elísabet var stolt af börnum sínum og barnabörnum og naut þess að kalla hópinn saman í góða matarveislu.

Elísabet lagði stund á nám við öldungadeild Menntaskólans við Hamrahlíð og var formaður öldungaráðs frá 1977-1980. Hún lauk stúdentsprófi 1981. Elísabet haslaði sér völl í viðskiptalífinu með stofnun fyrirtækisins Tóniku og flutti inn hjúkrunarvörur, rúm, lyftur og önnur hjálpartæki fyrir fatlað fólk. Þá var hún ötul í félagsstarfi, var m.a. formaður kvenfélagsins Seltjarnar og stofnaði París, félag þeirra sem eru einir. Einnig kom Elísabet á fót Karlakaffi í Seltjarnarneskirkju.

Útför hennar fer fram frá Seltjarnarneskirkju í dag, 4. október 2024, klukkan 11.

Mamma var fyrsta barn þeirra hjóna Jóns V. Guðjónssonar og Gyðu Valdimarsdóttur. Gyða amma, eins og ég kallaði hana, var glæsileg kona, með svart hár og brún augu. Hún var alltaf gordjöss með lagningu í hárinu og ávallt gætti hún þess að setja lítinn fæðingarblett í andlitið með dökkum blýanti svona í stíl við átrúnaðargoðið hana Sofiu Loren. Jón afi var allur í bisness, fyrst hjá hernum og svo í bílainnflutningi. Þegar ég sá þá tvo miklu andans menn fyrst á sjónvarpsskjánum, þá Beavis og Butthead, hélt ég að afi væri að tala þegar Beavis hóf upp raust sína. Afi talaði á leifturhraða eins og títt var í hans fjölskyldu og ræskti sig í sífellu líkt og félagi hans af sjónvarpsskjánum.

En leyfið mér að segja ykkur meira af henni mömmu. Hún var frá fæðingu mjög ákveðin. Það svoleiðis gustaði af henni. Hún var einstaklega góð í öllu sem viðvék prjónaskap, hekli og að sauma. Allt sem hún gerði var hið glæsilegasta.

Hún varð bálskotin í honum pabba mínum, Sigurði Rafni Bjarnasyni, aðeins fjórtán ára. Og hvílíkur ástarblossi. En það var einn galli á gjöf Njarðar. Pabbi var frá kolröngum enda hins pólitíska áss. Nú voru góð ráð dýr. Afi og amma (og kannski aðallega afi) ákváðu að þessu yrði að afstýra, að fjarlægðin myndi kæla ástina og hún myndi fjara út. Bessý var því drifin yfir hafið og til frænku sinnar í Englandi. Eftir nokkurra vikna dvöl og heilan bunka af eldheitum ástarbréfum frá Íslandi sneri hin unga og snotra snót aftur á Klakann þar sem hennar beið hinn illa þokkaði, eldrauði blikksmiðssonur.

Aðeins sautján ára eignuðust þau sitt fyrsta barn, litla telpu með hjartagalla. Henni var aðeins gefinn einn og hálfur dagur af þessari jarðvist. Að lokum flúði mamma sitt heiðbláa æskuheimili, Blómvelli, og hélt beint í roðann í austri á Langholtsveginum hjá Bjarna afa og Þrúði ömmu. Bessý og Siggi létu svo pússa sig saman 1960 og héldu á vit ævintýranna í Kóngsins Köbenhavn. Pabbi fór að gutla í lyfjaglösum en mamma opnaði íslenska umferðarmiðstöð á heimili þeirra á stúdentagörðum. Ekki mátti hún vita til þess að samlandar og bekkjarfélagar pabba væru einir að rolast einhvers staðar matarlitlir. Allir voru þeir velkomnir á heimili foreldra minna.

Mamma hafði gaman af því að rifja upp þegar dyrabjöllunni var hringt eina nóttina. Pabbi fór til dyra í náttfötunum og mamma kom í humátt á eftir með úfið hárið og stírurnar í augunum. Þar var kominn enn einn umkomulausi Íslendingurinn í Danaveldi, gamli bekkjarbróðir pabba úr MR, Ómar Ragnarsson. Hann var að sjálfsögðu drifinn inn og búið um hann á draumasænginni eins og sá fyrirferðarlitli og samanbrjótanlegi beddi var kallaður. Ómar launaði greiðann með vísukorni.

Baslið á mér er nálægt núna,
ræsti bóndann og reif upp frúna
og rúði flesta inn að skinni.


Bjarni bróðir minn fæddist þarna í Danmörku og fékk strax viðurnefnið Basse af því að hann var svoddan lille englebasse. Þríeykið flutti svo heim til Íslands. En hjónabandið entist ekki, heldur lauk því á leifturhraða a la afa-style. Svo skjótt gekk það að þegar allt var um garð gengið kom í ljós að lítill magabúi var á leiðinni í heiminn. Og svo fæddist ég.

Mamma giftist svo öðrum manni og fátt skemmtilegt er hægt að segja um það hjónaband. Á þrettándanum 1973 gekk svo mamma í sitt þriðja hjónaband. Það sama er ekki hægt að segja um eiginmanninn því hann gat ekki gengið heldur rúllaði sér inn í hjónabandið í hjólastól. Theodór A. Jónsson eða Teddi eða pabbi eða fóstri var akkeri mömmu, bæði rólegur og traustur.

Mamma fór í menntaskóla og eins og alltaf hafði hún nú ýmsar skoðanir á því hvað betur mætti fara enda var öldungaráð MH hennar vettvangur í þrjú af fjórum námsárum. Og nú þar sem hún var orðin eiginkona fatlaðs manns sökkti hún sér í nýtt áhugamál: kynlíf fatlaðra. Orð fá ekki lýst hversu vandræðalegt unglingnum mér þótti þegar hún birtist í löngu viðtali í Vikunni þar sem hún ræddi kynlíf hreyfihamlaðra fram og til baka. Og svo til að kóróna pínlegheitin var fjölskyldu-fermingarmyndinni minni skellt með greininni í Vikunni.

En svona var mamma, stærri en lífið, eins og maður segir á ammirísku. Einu sinni á mínum unglingsárum fórum við saman í bíó. Mamma valdi sér eldrauða stóra slá og eldrauðan barðastóran hatt í stíl. Ég reyndi að láta lítið fyrir mér fara og bað þess heitt og innilega að enginn væri í Háskólabíói sem ég þekkti. Mamma stormaði inn í salinn og valdi sæti í miðjum salnum alveg við gangveginn og lagðist svo yfir þrjú sæti. Og ég hugsaði: bíddu, er ekkert gat hérna í gólfinu sem ég get sokkið niður um.

En eins og áður segir ólst mamma upp í blárri trú enda var blóðið í æðum hennar dálítið blátt. Teddi stríddi mömmu óspart, kallaði hana gjarnan frú Von Flowerfield og vísaði þar til æskuheimilisins hennar Blómvalla við Nesveg. Mamma var frábær kokkur og hafði unun af því að halda veislur. Teddi hafði ógurlega gaman af því að minnast á menntunina sem mamma sótti sér í Danmörku á árum áður og sagði gjarnan sposkur á svip að mamma hefði lært fínustu matargerð en hún gekk í Frederiksberg husholdningsskole for finere madlavning. Mamma nýtti sér menntunina svo um munaði og skólaði okkur systkinin í góðum borðsiðum. Ekki mátti standa upp frá soðinni ýsu og kartöflum án þess að biðja viðstadda, þ.e.a.s. mömmu, Tedda og hundinn Mími, að hafa sig afsakaða og bíða svo kurteislega svars.

Hún mamma var stolt af okkur systkinunum og þótti næsta víst að allar okkar gáfur sæktum við til hennar. Og amma Bessý, eins og barnabörnin kölluðu hana, var óskaplega hrifin af þeim og þótti vænt um þau. Hún elskaði allan sinn hóp sem er nokkuð fjölbreytilegur, fjölþjóðlegur og mismikið fatlaður. Mamma vildi hjálpa öðrum, þó svo að hún gæti verið nokkuð fjarsýn þegar kom að þeim málum.

Og jafnvel eftir að mamma var lögð inn á B7 á Landspítalanum hjá því afbragðsfólki sem þar er, var stutt í glettni hjá henni. Þegar við systkinin stilltum okkur upp sitt hvorum megin við hana í myndatöku, gall í mömmu: Á ég ekki að vera svona eins og gamalmenni? Svo setti hún upp hinn mesta álkusvip, gapti og glennti upp augu svo þau stóðu á stilkum og glápti upp í loft.

Og nú sé ég fyrir mér að mamma lesi þetta og velti því fyrir sér stundarkorn hvort hún eigi að hefja vísifingurinn á loft og segja: svona gerir maður ekki. Eða hvort hún hreinlega myndi skella upp úr.

Kristín Sigurðardóttir.