Þrjú efstu lið ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu karla héldu sínu striki með sigrum um helgina.

Liverpool er áfram á toppnum eftir 1:0-sigur á Crystal Palace í Lundúnum í hádeginu á laugardag. Diogo Jota skoraði sigurmarkið snemma leiks.

Manchester City lenti í nokkrum vandræðum með Fulham á heimavelli en hafði að lokum 3:2-sigur. Mateo Kovacic skoraði tvívegis fyrir City og Jérémy Doku eitt mark.

Arsenal lagði þá Southampton í Lundúnum, 3:1. Cameron Archer kom Dýrlingunum yfir áður en Kai Havertz, Gabriel Martinelli og Bukayo Saka sneru taflinu við. City og Arsenal eru einu stigi á eftir Liverpool. Aston Villa og Manchester United gerðu markalaust jafntefli í Birmingham og Chelsea missteig sig á heimavelli gegn Nottingham Forest og gerði 1:1-jafntefli. Chelsea er í fjórða sæti og Villa í því fimmta, bæði með 14 stig.