Boðið verður upp á spurt og svarað með norska leikstjóranum Dag Johan Haugerud í Bíó Paradís annað kvöld, þriðjudagskvöldið 8. október, kl. 19.30 að lokinni sýningu myndar hans, Sex. Haugerud er heiðursgestur Norrænnar kvikmyndaveislu 2024 sem haldin verður í Bíó Paradís dagana 9.-14. október þar sem myndirnar sex sem tilnefndar eru til Kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs verða sýndar. Sex, sem var frumsýnd á Berlinale-kvikmyndahátíðinni 2024, fjallar um kynlíf, kynvitund, ást og hliðarspor eða óvænt kynlíf á vinnutíma. Hún er fyrsta myndin í þríleik leikstjórans, en næstu myndirnar tvær nefnast Dreams og Love.