— Morgunblaðið/sisi

Nýja gámabyggðin á bílaplaninu við Vörðuskóla á Skólavörðuholti í Reykjavík er að verða tilbúin.

Innan skamms tekur þarna til starfa nýr leikskóli, Vörðuborg. Alls verða 80 börn í leikskólanum í sex deildum. Börnin verða frá 12 mánaða aldri.

Þetta er fjórði leikskólinn sem er hluti af verkefninu Ævintýraborgir sem hófst árið 2021 til að fjölga leikskólaplássum í Reykjavík. Einkennandi fyrir skólana eru færanlegar gámaeiningar sem Reykjavíkurborg hefur tekið í langtímaleigu hjá fyrirtækinu Terra einingum ehf.

Vörðuborg stendur á lóðinni Barónsstíg 34 og er tæplega 800 fermetrar. Vörðuborg verður ein af þremur starfsstöðvum leikskólans Miðborgar en honum tilheyra einnig Lindarborg og Barónsborg. sisi@mbl.is