Fleiri einkaskólar gætu stuðlað að bættu námi

Skólakerfið íslenska hefur brugðist þeim vonum sem landsmenn bundu við það og máttu binda við það. Íslendingar verja miklu fé til menntamála, eins og við er að búast af vel stæðri þjóð, en þeir eiga þá líka að geta gert sér vonir um að íslenskir námsmenn standi framarlega í alþjóðlegum samanburði og fari frekar fram en aftur með árunum. Sú virðist ekki raunin þegar horft er til þeirra mælinga sem tiltækar eru, svo sem um lesskilning, ekki síst drengja, sem farið hafa enn verr út úr öfugþróuninni í skólakerfinu en stúlkurnar.

Það sem fram kom á menntaþingi á dögunum var ekki til þess fallið að efla tiltrú á að nú sé unnið markvisst að því að laga það sem aflaga hefur farið. Augljóst er til dæmis að athyglin er ekki á aðalatriðunum þegar eitt helsta áherslumál skólanna er talið eiga að vera „sjálfbærni og loftslagsmál í menntun“.

...