30 ára Þórunn er Reykvíkingur, ólst upp í Grafarvogi og býr þar. Hún er með BS-gráðu í líffræði frá HÍ og vinnur í gæðaeftirliti hjá Lýsi. Hún kennir einnig pole fitness í Eríal Pole og er hluti af sýningarhópnum Seiðr sem fékk Grímutilnefningu í ár fyrir sviðshreyfingar í leikritinu Ást Fedru. Þórunn hefur líka mjög gaman af því að hekla, föndra og syngja, en hún var í kórnum Vox Populi i tíu ár.

Fjölskylda Eiginmaður Þórunnar er Guðjón Viðar Stefánsson, f. 1991, lagerstjóri hjá Sölufélagi garðyrkjumanna, og kærasta þeirra er Margrét Sól Reinharðsdóttir, f. 1994, lyfjafræðingur hjá Lyfjaveri. Dóttir þeirra er Amelía Sól, f. 2024, og þau eiga hundinn Tíbrá. Foreldrar Þórunnar eru Jóhanna Höskuldsdóttir, f. 1968, kennari, búsett í Reykjavík, og Sigurður Sigurðsson, f. 1963, vélstjóri, búsettur í Hveragerði.