Þórir Hallgrímsson fæddist í Reykjavík 7. ágúst 1936. Hann lést 2. október 2024. Foreldar hans voru Elísabet Valgerður Ingvarsdóttir, f. 8. apríl 1898, d. 22. mars 1976, og Hallgrímur Jónasson, f. 30.10. 1894, d. 24.10. 1991. Bræður Þóris: Ingvar, f. 23.1. 1923, d. 19.9. 2017 og Jónas, f. 29.6. 1928, d. 25.6. 2017.

Eiginkona Þóris var Sigríður Hjördís Indriðadóttur, f. 7.6. 1939, d. 16.5. 2022. Sigríður starfaði sem kennari við Kársnesskóla í Kópavogi.

Sigríður og Þórir eignuðust tvö börn: Indriða Jóhann Þórisson, f. 4.5. 1963 og Elísabetu Þóreyju Þórisdóttur, f. 15.7. 1973.

1) Indriði er kvæntur Laufeyju Logadóttur, f. 20.7. 1974. Börn Laufeyjar eru Hafdís Lilja, f. 1994, gift Árna, börn þeirra eru Lovísa Sif og Ingólfur Þór, Anita Sif, f. 1997, Logi Breiðfjörð, f. 2000, trúlofaður Yrsu Þöll, börn þeirra eru Sævar Logi og Stefán Logi og Jóhann Magni, f. 2003.

Fyrri eiginkona Indriða er Anna Jóna Geirsdóttur, f. 11.2. 1962. Börn Indriða og Önnu eru Þórarinn Elís, f. 1990, Sigríður Hjördís, f. 1992, maki Hannes Guðlaugsson, börn þeirra eru Jóhanna Þórdís og Ólöf Anna, Brynhildur Ósk, f. 2001, maki hennar er Theódór Ólafsson og eiga þau Baltasar. Barn Önnu er Hafdís, f. 1979, maki Þorvaldur Ingi Guðjónsson, barn þeirra er Elís Kári, börn Hafdísar eru Anna Lilja, Mikael Aron og Írena Rut.

2) Elísabet er gift Flóka Halldórssyni, f. 29.12. 1973. Börn þeirra eru Una Sólveig, Ása Gunnþórunn og Saga Sigríður.

Þórir ólst upp í Skerjafirðinum. Hann gekk í Skildinganesskóla í Reykjavík og á æskuárum sínum fór hann í sveit hjá frændfólki í Skagafirði, Rangárvallasýslu og við Djúpavog. Á unglingsárum vann hann á sumrin í grjótnámi í Öskjuhlíð í tengslum við stækkun á Reykjavíkurhöfn og sem ungur maður starfaði hann á sumrin í lögreglunni í Kópavogi.

Þórir nam við Kennaraskóla Íslands og útskrifaðist sem kennari árið 1956. Þórir gerðist kennari við Kársnesskóla í Kópavogi sama ár og hann lauk kennaraprófi. Hann varð yfirkennari Kársnesskóla árið 1965 og skólastjóri árið 1980 til ársins 1999 þegar hann lét af störfum.

Þórir var einn af frumbyggjum Kársnessins og bjó þar alla tíð. Hann tók þátt í uppbyggingu skóla- og félagsstarfs í Kópavogi, var um árabil gjaldkeri knattspyrnudeildar Breiðabliks og síðar formaður Breiðabliks og var útnefndur Heiðursbliki fyrir störf sín í þágu félagsins árið 2014.

Útför Þóris fer fram í dag, 17. október 2024, frá Kópavogskirkju kl. 13.

Nú þegar komið er að kveðjustund viljum við systkinin minnast elsku pabba okkar.

Pabbi ólst upp í Skerjafirðinum þegar Skerjafjörðurinn var eins og sveitaþorp þar sem stunduð var nautgriparækt og trilluútgerð. Sem barn varð hann vitni að þeim miklum breytingum sem tilkoma hersins og lagning flugvallar í næsta nágrenni við heimili hans hafði í för með sér og var honum sá tími mjög minnisstæður. Pabbi var mikill sagnamaður og varð oft tíðrætt um barnæsku sína; fjölskyldu sína, samfélagið í Skerjafirði sem einkenndist af mikilli samheldni meðal nágranna og lífið eftir að herinn kom. Fjölskyldan tók m.a. upp á sína arma breskan hermann sem hingað var sendur fjarri fjölskyldu sinni og sem varð góður og mikill vinur fjölskyldunnar á Hörpugötunni. Pabbi var fróður um land og sögu og naut hann góðs af því að hafa ferðast töluvert um landið sem piltur með föður sínum sem var leiðsögumaður með Ferðafélagi Íslands.

Strax eftir útskrift úr Kennaraskólanum gerðist pabbi kennari í Kársnesskóla. Þar átti hann eftir að vera alla sína starfsævi, fyrst sem kennari, síðar sem yfirkennari og að lokum sem skólastjóri. Pabbi var vakinn og sofinn yfir skólastarfinu í Kársnesskóla. Um tíma voru yfir 900 nemendur í Kársnesskóla, skólinn þrísetinn og kennt á laugardögum. Pabbi rifjaði mjög oft upp tímann í Kársnesskóla með væntumþykju og orti um hann m.a. þessa vísu:

Glatt var oft í gamla daga,
gaman var að kenna þá.
Löngu liðin hugljúf saga,
ljósir dagar, eftirsjá.



Pabbi vann mikið starf í þágu Breiðabliks og var mjög áhugasamur um uppbyggingu félagsins. Hann var um tíma formaður þess og þegar hann var ekki að sinna skólastörfum fór tími pabba í skipulagningu og fundahöld vegna Breiðabliks, var m.a. oft fundað á heimili okkar og eyddi pabbi töluverðum tíma á Vallargerðisvellinum sem var þá eini fótboltavöllurinn í Kópavogi. Hann var harður stuðningsmaður Breiðabliks alla tíð og fylgdist með félaginu af áhuga.

Í Kársnesskóla kynntist pabbi móður okkar sem réð sig einnig til starfa í skólanum sem nýútskrifaður kennari. Á þessum tíma var húsnæðisskortur í Reykjavík, en Kársnesið var óbyggt og festu þau kaup á lóð þar, steinsnar frá Kársnesskóla þar sem þau byggðu hús og bjuggu alla ævi.

Foreldrar okkar voru einstaklega samrýmd hjón og einkenndist hjónaband þeirra af mikilli samheldni og hlýju. Þau störfuðu á sama vinnustað alla sína starfsævi og heima fyrir voru þau samtaka og gengu í öll störf saman. Eftir að mamma veiktist tók pabbi yfir öll heimilisverk og sinnti mömmu af einstakri alúð og umhyggjusemi. Það er mikið lagt á aðstandendur heilabilaðra en pabbi sinnti því hlutverki af aðdáunarverðu æðruleysi.

Pabbi var spaugsamur og léttur í lund. Hann gat þó verið fastur fyrir ef því var að skipta. Hann var félagslyndur og ræðinn og hafði gaman af því að segja sögur, hlusta á sögur annarra og spjalla í góðu tómi. Hann var vel lesinn, nákvæmur, vandvirkur og heiðarlegur. Hann var mikill íslenskumaður, talaði kjarnyrt og fallegt mál og var hagorður. Líkt og margir af hans kynslóð var hann nýtinn og sparsamur. Pabbi var mikill fjölskyldumaður, hann var áhugasamur um líf fjölskyldumeðlima og ættingja og studdi fólkið sitt með ráðum og dáðum. Bóngóður var hann og greiðvikinn, réttsýnn og heiðarlegur. Hann var dýravinur, fóðraði fuglana í garðinum af mikilli samviskusemi og kastaði kveðju á alla ketti sem hann hitti á förnum vegi. Pabbi var tilfinningaríkur og hrifnæmur og kunni að meta það fallega í lífinu. Átti hann það til að hringja í okkur til að láta okkur vita af fallegum norðurljósum eða stórkostlegu sólarlagi sem hann vildi ekki að við misstum af. Honum fannst gaman að ferðast og kunni vel að meta fallega sólardaga.

Pabbi hafði mörg áhugamál og kunni ekki að láta sér leiðast. Hann lék tennis og badminton, var í gönguhópum með vinum sínum sem hittust reglulega og jafnframt gengu hann og mamma nær daglega á meðan heilsa leyfði. Hann hafði mikinn áhuga á útivist og skógrækt, hreyfingu og heilbrigðu líferni. Nábýlið við flugvöllinn í barnæsku gerði það að verkum að hann hafði mikinn áhuga á flugvélum og gat þekkt flugvélategundir á hljóðinu einu saman. Hann las vikulega fyrir heimilisfólkið á Sunnuhlíð eða þar til hann treysti sér ekki lengur til að víkja frá mömmu. Eftir að hann hætti að vinna gerðist hann ásamt mömmu dagforeldri barnabarna sinna þegar brúa þurfti bilið fram að leikskóla og hélt áfram nánu sambandi við afabörn sín, m.a. með vikulegum ömmu- og afadögum.

Þetta ár var erfitt fyrir pabba, kollurinn var skýr en líkaminn brást honum. Það átti mjög illa við sjálfstæðan föður okkar að vera háður öðrum á sjúkrastofnunum og hann hélt ávallt í vonina um að fá bata og komast aftur heim.

Líf okkar á eftir að vera fátæklegra án okkar stórbrotna og skemmtilega föður. Við munum minnast hans með gleði, þakklæti og hlýju.

Ævin er sem lítið lag
leikið á hörpu strengi.
Sungið svo með ýmsum brag
sem varir ekki lengi.

(Þórir Hallgrímsson)






Elísabet og Indriði.