— AFP/John Thys

Volodimír Selenskí Úkraínuforseti heimsótti Brussel í gær. Kynnti Selenskí þar siguráætlun sína í Úkraínustríðinu fyrir leiðtogum hinna 27 aðildarríkja Evrópusambandsins. Selenskí fundaði síðar með varnarmálaráðherrum Atlantshafsbandalagsins í sömu erindagjörðum.

Selenskí ræðir hér við Charles Michel, forseta leiðtogaráðs ESB, og Ursulu von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnar sambandsins, og fór vel á með þeim.

Helsti þátturinn í áætlun Selenskís kallar á að Úkraína fái aðild að Atlantshafsbandalaginu sem fyrst. Mark Rutte framkvæmdastjóri NATO sagði í gær um áætlun Selenskís að Úkraína yrði bandalagsþjóð, en að engin leið væri að segja til um það á þessari stundu hvenær það myndi gerast.