Liam Payne
Liam Payne

Breski söngvarinn Liam Payne, einn meðlima strákahljómsveitarinnar One Direction, er látinn aðeins 31 árs. Í frétt AFP kemur fram að hann hafi hrapað af þriðju hæð hótels í Buenos Aires í Argentínu. Þar segir jafnframt að ekki sé vitað hvort fallið hafi verið slys. Payne hafði talað opinskátt um baráttu sína við áfengisfíkn og að sögn lögregluyfirvalda í Argentínu hafði lögregla verið kölluð til vegna manns í annarlegu ástandi. Aðdáendur Paynes, sem flestir eru á þrítugs- og fertugsaldri, hópuðust saman nálægt slysstaðnum þegar fréttir bárust af andlátinu.

Hljómsveitin One Direction var stofnuð í sjónvarpsþættinum The X Factor í Bretlandi árið 2010 en aðrir meðlimir voru Harry Styles, Niall Horan, Louis Tomlinson og Zayn Malik. Payne hafði einnig gefið út tónlist sjálfstætt eftir að hljómsveitin hætti störfum.