Frank Walter Sands fæddist í Cambridge, Massachusetts í Bandaríkjunum, 22. janúar 1966. Hann lést í Avignon í Frakklandi 8. október 2024.

Foreldrar Franks eru Victoria Leigh, f. 1939, og Frank E. Sands, f. 1936.  Stjúpforeldrar Franks eru Brinna B. Sands, f. 1939, og Timothy Weaver, f. 1940. Alsystir Franks er Anne Whitney Sands, f. 1961. Stjúpsystkini hans eru Ellen Kitchel, f. 1963, Jennifer Kitchel-Rheining, f. 1965, d. 2021, og Davis Kitchel, f. 1968.

Frank kvæntist 21. júní 1992 Auðbjörgu Halldórsdóttur. Þau skildu 2021. Börn þeirra eru: Zoë Vala, f. 1995, Phoebe Sóley, f. 1998, og Heba Leigh, f. 2005.

Frank var með eindæmum fróður og mikill áhugamaður um sögu og vísindi. Hann lærði í Þýskalandi, Íslandi, Frakklandi og Belgíu og var með háskólagráður frá Boston University, Institut Superieur de Gestion í París og KU Leuven í Belgíu. Hann var mikill málamaður og talaði, auk ensku sem var móðurmál hans, þýsku, frönsku, íslensku og flæmsku og lagði undanfarin ár stund á spænsku. Hann lærði köfun, var með einkaflugmannspróf og spilaði á fjölmörg hljóðfæri.

Frank fluttist til Íslands árið 1991 og kom víða við á starfsævi sinni á Íslandi, kenndi m.a. ensku við Framhaldsskólann í Vestmannaeyjum og þýsku við Menntaskóla Borgarfjarðar. Hann stofnaði og rak veitingastaðinn Vegamót 1997-2000 og Reykjavík Bagel Company 2003-2005. Auk viðskiptareksturs starfaði Frank sem leiðsögumaður og pistlahöfundur fyrir Iceland Review.

Útför Franks fer fram frá Fríkirkjunni í Reykjavík í dag, 18. október 2024, klukkan 13.

Þegar mér bárust fréttirnar af hörmulegu og ótímabæru andláti vinar míns Franks þyrmdi yfir mig og í gegnum hugann leiftruðu myndir og brot frá samveru okkar í gegnum árin. Hvernig gátu örlögin verið svo grimm og miskunnarlaus manni á besta aldri fullum af lífskrafti?

Þungt er höggið og sárt.

Vinátta okkar Franks nær allt aftur til ársins 1989, en þá kynntumst við nánast fyrir tilviljun. Ég nýkominn heim úr námi erlendis var að leita mér að húsaskjóli og rakst á auglýsingu í dagblaði þar sem auglýst var eftir meðleigjanda að íbúð í miðbænum. Þetta var húsnæði á tveimur hæðum þar sem Toft verslun var áður til húsa við Skólavörðustíg. Frank, sem leigði íbúðina, var þá tiltölulega nýkominn til landsins vegna sambands hans við Aubý, en hún var enn við nám í Boston.
Það varð að samkomulagi að ég gengi inn í leiguna, hann hefði efri hæðina en ég þá neðri. Fljótlega rugluðust þó reytur þannig að við deildum öllu rýminu saman eftir þörfum og sáum sameiginlega um heimilishald og aðdrætti.

Það væri auðvitað lygi að halda því fram að aldrei hafi hrikt í þessari sambúð, en það var líka auðvitað partur af því að kynnast og átta okkur á hvor öðrum.

Frank sagði mér eftir á að margir hefðu sýnt auglýsingunni áhuga. Hann hefði þó valið mig vegna þess að ég kunni eitthvert hrafl í ensku og þá líka vegna þess að ég hafði sýnt píanói sem stóð á miðju gólfi neðri hæðarinnar áhuga og spurt hann hvort hann spilaði. Í framhaldinu varð svo ljóst að við deildum brennandi áhuga á tónlist og spilamennsku auk þess að geta glamrað á gítar. Reyndar hef ég stundum haft það á tilfinningunni að góðar vættir hafi leitt okkur þarna saman vegna þess hve vel við náðum saman á svo mörgum öðrum sviðum.
Fljótlega fórum við að njóta samveru hvor annars, duttum öðru hvoru inn á lókalpöbbinn okkar á Laugavegi 22, sóttum tónleika, fórum í sund og vorum fastagestir í Regnboganum (nú Bíó Paradís). Þar komum við okkur upp kerfi. Sátum eftir inni eftir að einni sýningu lauk og svindluðum okkur inn á aðra á eftir. Á góðum degi náðum við þannig þremur bíómyndum í röð á verði einnar, sem auðvitað var einkar hagkvæmt því ekki óðum við beint í peningunum í þá daga.

Mikið var spilað á gítara og píanó á Skólavörðustígnum á þessum tíma og gátum við gleymt okkur stundunum saman við þá iðju þar sem djassaður blús var í aðalhlutverki.
Það kom svo að því að Frank yfirgæfi landið um tíma og ég varð einn eftir í slotinu. Þegar hann svo sneri til baka, hafði ég flutt mig um set heim til Laufeyjar minnar sem núna er eiginkonan mín.

Þráðurinn var þó fljótlega tekinn upp aftur, spilamennskan tekin föstum tökum og nokkru síðar í góðu æfingahúsnæði með tveimur öðrum hljóðfæraleikurum.

Í millitíðinni eignaðist ég svo Hörpu mína og ári síðar fæddist Zoë Vala dóttir Franks. Tónlistin var eftir sem áður ástunduð þó að með tímanum yrði hún lágstemmdari. Þá gjarnan við tveir með kassagítara og stundum prógrammeruð maskína með. Þetta gutl okkar hélt svo áfram með hléum allt þar til Frank hvarf okkur svo sviplega.


Með árunum hóf Frank allnokkur umsvif hér á landi og byggði m.a. upp skemmti- og veitingastaðinn Vegamót sem fljótlega varð heitasti staður bæjarins og svo síðar Reykjavík Bagel Company við Laugaveg.
Frank lagði mikið upp úr samveru með fjölskyldu sinni, bæði hér heima og úti í Bandaríkjunum. Hann var mjög tengdur dætrum sínum og notaði hvert tækifæri sem gafst til þess að vera með þeim og styðja þær.

Þær voru honum númer eitt og annað kom svo á eftir.

Frank var maður sem gjarnan setti sér markmið, bæði hvað varðaði líkamlega hreyfingu, æfingar á hljóðfæri eða þá í því sem sneri að vinnu. Oftar en ekki gengu þau markmið eftir. Hann var í góðu formi líkamlega, gekk 10-15 km daglega og slæmt mátti veðrið vera til þess að þeim göngum væri sleppt.

Við Frank gátum rætt flest, allt frá persónulegum sorgum okkar og sigrum til hinstu raka lífsins og voru þær samræður alltaf gefandi. Einn af höfuðkostum Franks var hvatning hans og stuðningur ekki síst ef eitthvað bjátaði á. Hann var þannig til staðar ef ég þurfti á öxl að halda til að gráta við eða þá til að fagna með eða leita ráða hjá og vona ég að það hafi verið gagnkvæmt.

Frank átti það til að einhenda sér í langar ræður þegar sá gállinn var á honum, ekki síst ef talið barst að bandarískum stjórnmálum. Hann hafði þungar áhyggjur af því ástandi sem kynni að skapast ef hráblaut mannfyrirlitning og popúlismi Trumps næði fótfestu á ný og var hann vel heima í öllum þeim vendingum sem þar urðu frá degi til dags.

Gervigreindin var nokkuð sem vakti mikinn áhuga hjá Frank og hafði hann lesið einhver ósköp af vísindagreinum um fyrirbærið auk þess sem hann hafði prófað að vinna með hana á ýmsum sviðum. Ekki var laust við að maður fyndi til vanmáttar við að reyna að fylgja honum eftir þar, enda var þekking hans yfirgripsmeiri en maður hafði nokkrar forsendur til þess að meðtaka að fullu. Þannig var Frank með afbrigðum fróðleiksfús. Hann var fljótur til að kynna sér hugmyndir og nýjungar í vísindum og þá ekki síst í tölvuheiminum. Hann las mikið, gjarnan sögutengt efni og góðar vísindaskáldsögur. Oft áttum við áhugaverðar og skemmtilegar samræður út frá því sem hann var að sökkva sér niður í þar hverju sinni.

Frá byrjun dvalar Franks á Íslandi gerði hann sér sérstakt far um að kynnast sem best sögu landsins, tungumálinu, þjóðháttum og stjórnarfari. Hann skrifaði m.a. margar greinar í Iceland Review um landið og ýmis tímabil í sögu þess.
Frank var útivistarmaður mikill og elskaði náttúruna. Hann ferðaðist víða um landið og um hálendið og þá ekki síður til fjarlægra landa. Þau voru ófá löndin sem hann heimsótti á lífsleiðinni og þá líka staði sem kannski voru ekki beint í alfaraleið. Í nokkur ár starfaði Frank sem leiðsögumaður þar sem hann fór með erlenda ferðamenn vítt og breitt um landið.

Þegar ég horfi til baka er margs að minnast og margt sem ég mun sannarlega sakna í okkar samskiptum.
Auðvitað gat stöku sinnum blásið á móti, við þrasað smá og tekist á um hugmyndir og skoðanir, enda varla hægt að fara í gegnum 35 ára vináttu án einhverra hnökra öðru hverju.
Upp úr stendur gleðin og þakklætið fyrir samveruna með góðum vini og sannkölluðum lífskúnstner.

Hjólatúrarnir, bíóferðirnar, badmintonið, spilamennskan, Fontblanche, samverustundirnar með Vífli og allir spjallhittingarnir verða svo teknir upp aftur síðar á öðru tilverustigi.

Og eitt enn, mundu svo að þegar að mínum fardögum kemur, þá set ég traust mitt á það að þú bíðir mín með tvo gítara og eina pizzu a la Frank. Ég mæti með nokkra kalda.
Svo teljum við í, elsku vinur.

Elsku Aubý, Zoe Vala, Phoebe og Heba.
Megi kærleiksríkar og nærandi minningar um góðan dreng umvefja ykkur og styrkja á þessum erfiðu tímum.

Hilmar Jónsson.