Agnes M. (Margrétardóttir) Sigurðardóttir fæddist 19. október 1954 í Pólgötu 10 á Ísafirði og átti þar heima til fullorðinsára. Hún gekk í barnaskóla Ísafjarðar, Gagnfræðaskólann þar og útskrifaðist af eðlisfræðibraut frá Menntaskólanum á Ísafirði. Hún útskrifaðist með cand. theol.-gráðu frá HÍ vorið 1981, veturinn 1996-1997 stundaði hún nám í prédikunarfræði í Uppsölum í Svíþjóð og veturinn 2006-2007 rannsakaði hún félagsmótun prestabarna. „Sautján ára ákvað ég að verða prestur eins og pabbi. Allt sem hann gerði fannst mér spennandi og ég elskaði kirkjuna mína.

Á uppvaxtarárum mínum var allt á kafi í snjó á vetrum og þar sem ég bjó í Neðri bænum þurfti ég ekki að fara á skíðum í skólann eins og margir krakkar sem áttu heima uppi í bæ eða inni á vegi. Ófá skiptin klifraði ég upp á bílskúrinn hans pabba og stökk þar niður í snjóskaflana sem nóg var af.“

...