Ólafur E. Jóhannsson
oej@mbl.is
Starfshópur innviðaráðherra sem kannaði fýsileika jarðganga á milli lands og Vestmannaeyja tilgreinir fimm mögulega valkosti við byggingu ganganna. Þetta eru botngöng, flotgöng, göng með kyndilborun í berg, heilborun með gangaborvél og loks hin hefðbundna aðferð; að bora og sprengja.
Valkostirnir fimm
Botngöng eru gerð úr forsmíðuðum einingum sem raðað er á hafsbotninn frá risastórum prömmum og einingarnar síðan tengdar saman. Segir í skýrslu starfshópsins að þessi aðferð sé dýr og notuð í grynnra vatni. Ekki er talið að botngöng geti komið til álita þar sem dýpi í álnum á milli lands og Eyja er of mikið. Nefna má að jarðgöng til Vestmannaeyja munu liggja neðst á 220 metra dýpi undir sjávarmáli, þar sem dýpst er.
...