Kristján Jóhannsson
Kristján Jóhannsson

Ólafsvaka, er yfirskrift söngskemmtunar og styrktartónleika sem haldnir verða í Langholtskirkju í kvöld kl. 19.30. Ólafur M. Magnússon stendur fyrir tónleikunum og segir að í tilefni af 60 ára afmæli sínu hafi hann „ákveðið að efna til tónleika með frábærum tónlistar- og söngvinum mínum. Um leið og við höldum frábæra söngskemmtun með léttu ívafi, viljum við láta gott af okkur leiða og ágóði af tónleikunum rennur til styrktar ungmenna í vímuefnavanda hjá SÁÁ. Þannig viljum við heiðra minningu Magnúsar Andra Sæmundssonar bróðursonar míns sem lést langt fyrir aldur fram aðeins 19 ára gamall úr fíknisjúkdómi,“ segir Ólafur í viðburðarkynningu. Kynnir kvöldsins er Gísli Einarsson, en auk Ólafs koma m.a. fram söngvararnir Kristján Jóhannsson, Gissur Páll Gissurarson og Björg Þórhallsdóttir, nokkur fjöldi hljóðfæraleikara sem og karlakórar Kópavogs og Kjalnesinga. Miðar fást á tix.is.