Þegar allt er samantekið eru efnahagsleg lífskjör meðalfjölskyldunnar á Íslandi ágæt en alls ekki þau bestu í heimi.

Stefán Ólafsson

Á Íslandi er oft talað um að hér séu laun með þeim hæstu sem þekkjast í heiminum. Einnig að við séum með eitt besta velferðarkerfi heimsins. Hvort tveggja er svolítið ýkt.

Laun á vinnustund eru há hér en verðlag er með allra hæsta móti og sérstaklega á húsnæði og matvælum, sem vega mest í venjulegum útgjöldum lægri og millitekjuhópa. Þá er framlag velferðarkerfisins til heimila vinnandi fólks (barnabætur og húsnæðisstuðningur) minna en víða í grannríkjunum og lífeyrir almannatrygginga er of lágur fyrir þá sem hafa lítið frá lífeyrissjóðum.

Kaupmáttur ráðstöfunartekna heimila meðalfjölskyldna fangar útkomuna af því samspili launa, verðlags, velferðartilfærslna og skatta sem ákvarðar efnahagsleg lífskjör fólks – afkomu heimilanna.

...