Þorlákur Árnason var á dögunum ráðinn þjálfari karlaliðs ÍBV í fótbolta. Gerði hann þriggja ára samning við ÍBV og tekur við af Hermanni Hreiðarssyni, sem hætti með liðið eftir að hann kom því upp í Bestu deildina, eftir eitt tímabil í 1. deild.
Þorlákur, sem er 55 ára, er nýhættur með kvennalið Damaiense í Portúgal og var því ekki lengi án félags. „Þetta gerðist hratt. Ég lauk störfum í Portúgal og kom heim og var varla sestur í sófann þegar Eyjamenn hringdu,“ sagði Þorlákur í samtali við Morgunblaðið.
Hann sagði þó ekki upp starfi sínu hjá Damaiense til að taka við ÍBV. Hann var með starf í Kína í sigtinu, en samþykkti að lokum tilboð ÍBV. Þorlákur var áður yfirmaður knattspyrnumála í Hong Kong og þekkir því vel til fótboltans í Asíu.