Breyting á vinnufyrirkomulagi kennara, til dæmis með því að auka hlutfall kennslu og lengja skólaárið, er eitt af því sem samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga (SÍS) er að reyna að koma inn í samtalið við Kennarasamband Íslands í kjaradeilunni, sem virðist þó ennþá öll í hnút.
Með breyttu vinnufyrirkomulagi væri hægt að auka verðmæti starfsins, spara á einhverjum sviðum og létta á vinnuálagi kennara.
Þetta sagði Inga Rún Ólafsdóttir, formaður samninganefndar SÍS, í samtali við mbl.is í gær.
Segir hún að hugmyndir um hvernig megi draga úr vinnuálagi kennara hafi einnig komið fram. Til stendur að halda samtalinu áfram í dag að sögn Ingu.
Verkföll hófust í níu skólum á þriðjudag og boðað hefur verið til verkfalla í fleiri skólum í nóvember. Þá er viðbúið að enn fleiri skólar bætist í hópinn ef samningar nást ekki fljótlega.