Naim Qassem, nýkjörinn leiðtogi Hisbollahsamtakanna í Líbanon, sagði í ávarpi í gær að samtökin myndu halda fast við „stríðsáætlun“ Hassans Nasrallahs fyrirrennara síns, sem féll í flugskeytaárás Ísraelsmanna í september.
Qassem sagði að Hisbollah væri að rétta sig við eftir sársaukafull áföll en margir forystumenn samtakanna hafa að undanförnu fallið í aðgerðum Ísraelshers. Hann sagði að Hisbollah berðist við Ísrael til að verja líbanskt landsvæði en gengi ekki erinda erlendra afla og bætti við að Íranar styddu samtökin en ætluðust ekki til neins í staðinn.
Qassem er 71 árs og hefur síðustu áratugi verið aðstoðarframkvæmdastjóri Hisbollah.