Embætti ríkissaksóknara í Georgíu hefur hafið rannsókn á ásökunum um að kosningasvik hafi verið framin í þingkosningum, sem fóru fram í landinu á laugardag.
Þá hefur landskjörstjórn ákveðið að telja aftur atkvæði frá um 14% kjörstaða.
Vestræn ríki hafa fullyrt að brögð hafi verið í tafli í kosningunum þar sem stjórnarflokkur landsins, Georgíski draumurinn, var lýstur sigurvegari með tæplega 54% atkvæða. Stjórnarandstöðuflokkar landsins hafa neitað að viðurkenna úrslitin og lýst því yfir að fulltrúar þeirra sem náðu kjöri muni ekki taka sæti á þingi landsins.
Tugir þúsunda hlýddu kalli stjórnarandstöðunnar og forseta landsins og mótmæltu kosningaúrslitunum framan við þinghúsið í Tblisi, höfuðborg landsins, á mánudag.