Í innsetningu Þorvaldar Þorsteinssonar Söngskemmtun er framan við læstar dyr fatahengi með yfirhöfnum eldri borgara af báðum kynjum. Yfir fatahenginu er plastskilti, sem á stendur: „Ekki er tekin ábyrgð á yfirhöfnum“, og þegar komið er nær má finna ilminn af ólíkum ilmvatns- og rakspírategundum. Í gegnum læstar dyrnar berst kórsöngur en það er kór eldri borgara sem syngur fyrir fullum sal af fólki. Við heyrum sönginn, klappið og kynningar kórstýrunnar. Á hurðinni er miði sem á er skrifað: „Athugið. Ekki er hleypt inn í salinn eftir að söngskemmtunin hefst.“ Í umfjöllun og sviðsetningum Þorvaldar er kímni og kaldhæðni ákveðinn þráður og hér er áhorfandanum boðin þátttaka, án þess þó að hann hafi aðgang að því sem hann heyrir, þ.e. tónlistinni. Hann sér aðeins yfirhafnir þeirra sem syngja í salnum, heyrir sönginn en kemst ekki inn. Hann kemur of seint og á þess ekki kost að njóta söngskemmtunarinnar. Í viðtali árið 2004 sagði Þorvaldur, þegar hann útskýrði
...