Guðmundur Sv. Hermannsson
gummi@mbl.is
Þriggja daga þjóðarsorg var lýst yfir á Spáni í gær eftir að í það minnsta 95 létu lífið í skyndiflóðum í Valensíu og Kastilía-La Mancha á þriðjudagskvöld. Búist var við í gær að sú tala myndi hækka. Eru þetta mannskæðustu flóð sem orðið hafa á Spáni frá árinu 1996 þegar 86 létu lífið í Aragon-héraði nálægt Pírenafjöllum.
Mikil úrkoma og hvassviðri hafa verið á Spáni alla vikuna og valdið flóðum í austurhluta landsins og í Andalúsíu. Á átta klukkustundum mældist úrkoma víða á svæðinu álíka mikil og meðalúrkoma á einu ári. Veðurfræðingar sögðu að vatnsveðrið hefði stafað af því að kalt loft fór yfir hlýjan sjó á Miðjarðarhafi og þá mynduðust gríðarmikil skúraský. Að sögn almannavarna á Spáni urðu nokkur hundruð manns innlyksa á tveimur hraðbrautum í Valensíu. Ferðir lesta stöðvuðust og flugsamgöngur röskuðust einnig.
Björgunarsveitir í
...