— Morgunblaðið/Árni Sæberg

Stórt mósaíkverk eftir listakonuna Nínu Tryggvadóttur hefur verið flutt í nýjar höfuðstöðvar Icelandair í Hafnarfirði. Það prýddi skrifstofur flugfélagsins við Reykjavíkurflugvöll en fær nú nýjan stað líkt og annað í starfsemi þess. Flutningunum á að ljúka fyrir áramót. Eins og komið hefur fram í Morgunblaðinu er umrætt verk án titils en hefur verið kallað Víkingaskip á siglingu. Það er 5,9 x 2,7 m á stærð og var á sínum tíma sérstaklega unnið af listakonunni Nínu fyrir orð Sigurðar Helgasonar, þá svæðisstjóra Loftleiða í Bandaríkjunum og seinna forstjóra Flugleiða. Var því upphaflega komið fyrir í afgreiðslusal félagsins á Kennedy-flugvelli í New York árið 1968.