Á seinustu metrum þykir skriffinnum rétt að halda sér til hlés og forðast um leið að smella sér í gamla spámennskukuflinn sinn, varðandi líklega niðurstöðu um úrslit kosninga í Bandaríkjunum. Ástæðurnar fyrir óvæntri varfærni eru augljósar.
Eftir örfáa daga liggja úrslitin fyrir. Drjúgur hluti atkvæða liggur þegar fyrir og verður ekki breytt nema kjósandinn fá bakþanka og nái að mæta á sjálfan kjördaginn og geti kosið öðruvísi en í gær eða fyrradag. Sé það þá heimilt, eins og er í hinu frjálslega landi lengst norður í höfum. Skrifarar spámannapistla hugsa einnig til þess að aldrei fyrr hefur jafnstór hluti kjósenda valið að kjósa allmörgum dögum fyrir kosningarnar. Það þýðir að verulegur hluti atkvæðanna liggur þegar fyrir, krossaður í bak og fyrir í kössum yfirvalda, þannig að hugsanlegir tilburðir frambjóðenda til að tryggja sér nývaxandi væntingar koma of seint fram. Við það bætist í bunka hefðbundins ótta þeirra, sem þykjast spá um hvað gerist, þegar milljónir
...