Milli klukkan tvö og þrjú aðfaranótt mánudags varð hrina um 20 smáskjálfta á milli Sýlingarfells og Stóra-Skógfells. Um tíma var talið að kvikuhlaup væri að hefjast við Sundhnúkagíg og fundaði bakvakt almannavarna með Veðurstofunni um miðja nótt. Aðrar mælingar gáfu ekki vísbendingar um yfirvofandi kvikuhlaup og var ákveðið að ekki þyrfti að bregðast við hrinunni sem tók að róast eftir klukkan þrjú um nóttina.
„Í þessu tilfelli datt skjálftavirknin niður og þá bíðum við til að sjá hvort hún taki sig upp aftur. Hún gerði það ekki og þá er það bara búið. Ef það hefði gerst hefðum við farið í viðbragð. Við vorum alveg á nippinu með hvað við ættum að gera,“ sagði Benedikt Gunnar Ófeigsson, fagstjóri aflögunarmælinga á Veðurstofu Íslands. Skjálftarnir voru allir undir 1 að stærð og á 3-6 kílómetra dýpi. Þeir voru á svipuðum slóðum og áður hefur verið við upphaf kvikuhlaupa á Sundhnúkagígaröðinni, en
...