Tíu börn liggja enn á Barnaspítala Hringsins vegna E. coli-sýkingar sem kom upp á leikskólanum Mánagarði fyrir rúmum tveimur vikum. Þar af er eitt barn á gjörgæslu og í öndunarvél og verður eitthvað áfram.
Þetta staðfesti Valtýr Stefánsson Thors, yfirlæknir barnalækninga á Landspítalanum, í samtali við mbl.is í gær. Flest barnanna eru á batavegi, en þó ekki öll. Þá eru 15 til 20 börn í eftirliti á bráðamóttöku barna á tveggja daga fresti að öllu jöfnu. „Það er mikið álag á bráðamóttökunni og deildinni, þetta er ansi þungt hjá okkur,“ segir Valtýr.
Ekki hafa komið upp ný smit síðustu daga og gerir Valtýr ráð fyrir að hópsýkingin sé að ganga yfir. Það sé vissulega jákvætt. E. coli-smitið hefur verið rakið til blandaðs nauta- og kindahakks sem börnin fengu í matinn á leikskólanum þann 17. október síðastliðinn. Var það niðurstaða rannsóknar að meðhöndlun og eldun þess hefði ekki verið með
...