Útlit er fyrir að seinkun verði á sendingu af mandarínum, sem margir landsmenn tengja helst við jólin, til landsins í ár. Ástæðan er mikil flóð sem urðu á Spáni í lok október.
„Robin er staddur í Valencia,“ sagði Jóhanna Þorbjörg Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Banana ehf., í samtali við mbl.is í gær en Bananar ehf. flytja inn mandarínurnar frá Robin á þessum tíma árs og hafa þær verið gífurlega vinsælar á meðal Íslendinga, sérstaklega yfir jólin. „Þetta er það sem við vitum. Það verður seinkun og hvernig uppskeran er hjá honum, það á eftir að koma í ljós.“
Hún segist ekki vita hve mikið högg seinkunin verði fyrir fyrirtækið þar sem ekki er vitað hvenær von sé á sendingu. Robin vonist þó til þess að geta afhent eitthvert magn. Seinkunin hafi þó kannski tilfinningalegt gildi fyrir Íslendinga vegna vinsælda ávaxtarins á þessum árstíma.