Söngskóli Sigurðar Demetz stendur fyrir tónleikum fyrir vinafélaga skólans í kvöld, fimmtudaginn 14. nóvember, kl. 20. Segir í tilkynningu að tónleikarnir verði haldnir í sal skólans, Hljómbjörgu, á 2. hæð Ármúla 44 en gengið sé inn í húsið frá Grensásvegi.
„Vinafélag SSD var stofnað haustið 2015 og er því ætlað að veita skólanum stuðning. Ekki er síður tilgangur félagsins að heiðra minningu fyrsta verndara skólans, Sigurðar Demetz.“
Á tónleikunum koma fram söngkonurnar Diddú, Jóhanna Vigdís Arnardóttir, Lilja Guðmundsdóttir, Margrét Hrafnsdóttir, Hallveig Rúnarsdóttir og Sigríður Eyrún Friðriksdóttir ásamt píanóleikurunum Aladár Rácz, Guðnýju Charlottu Harðardóttur, Helgu Bryndísi Magnúsdóttur og Karli Olgeirssyni. Einnig koma fram fyrrverandi nemendurnir Anna Guðrún Jónsdóttir, Alexander Jarl Þorsteinsson og Kristján Jóhannesson.