Bassaleikarinn og tónskáldið Sigmar Þór Matthíasson gaf nýlega út sína þriðju sólóplötu sem ber heitið Uneven Equator, en Sigmar og hljómsveit koma fram á tvennum tónleikum í vikunni; í dag, fimmtudaginn 14. nóvember, á tónleikaröðinni Jazz í Djúpinu í Reykjavík og á morgun, föstudag, í tónleikasalnum Hömrum hjá Tónlistarfélagi Ísafjarðar.
Segir í tilkynningu að platan sé eins konar „rökrétt en þó sjálfstætt framhald af hans síðustu plötu Meridian Metaphor, þar sem söngur og strengjahljóðfæri bætast við og stækka þannig hljóðheiminn – nútíma jazz sem blandast við austræna heimstónlist á frumlegan hátt“. Kemur þar jafnframt fram að hljómsveit Sigmars hafi komið fram víða um land undanfarin fjögur ár og hlotið Íslensku tónlistarverðlaunin 2022 sem flytjandi ársins (hópar) í flokki djass- og blústónlistar.