Donald Trump nýkjörinn Bandaríkjaforseti þakkaði Joe Biden sitjandi Bandaríkjaforseta fyrir að heita hnökralausum valdaskiptum þegar Trump tekur við embættinu í annað sinn í janúar. Trump gekk á fund Bidens í Hvíta húsinu í gær þar sem þeir tókust í hendur. „Velkominn til baka,“ sagði Biden þegar hann mætti mótherja sínum frá kosningunum árið 2020. Fram til ársins 2020 hafði verið hefð fyrir því að sitjandi forseti boðaði nýkjörinn forseta á fund sinn í Hvíta húsinu þar sem þeir myndu ræða valdaskiptin. Trump vék frá þeirri hefð þegar hann dró niðurstöður kosninganna í efa það árið og neitaði að setjast á fund með Biden. „Stjórnmál eru erfið og eru oft ekki mjög indæll heimur. Í dag er heimurinn indæll og ég kann mjög að meta það,“ sagði Trump í gær.