„Í mínum huga var þetta mál ekkert annað en hneyksli frá upphafi til enda. Gert var samsæri á Alþingi sem ákveðnir menn í Samfylkingunni voru á bak við um að hagræða atkvæðum til að ég einn yrði ákærður,“ segir Geir H. Haarde fyrrverandi forsætisráðherra um landsdómsmálið í samtali við Sunnudagsblað Morgunblaðsins.
Hann kveðst meta það við þá sem hafa komið til hans, meðal annars heim til hans, til að biðja hann afsökunar á sínum þætti í þessu máli. „Það gerðu sumir mjög snemma og aðrir seinna. Þetta er enn að naga samvisku ýmissa sem tóku þátt í þessu. Ég met það við fólk sem segist sjá eftir hlutum og get vel fyrirgefið því. Svo er hins vegar annað fólk sem af ýmsum ástæðum getur ekki fengið af sér að biðjast afsökunar og á því fólki hef ég litlar mætur. Svo það sé bara sagt.“