Þingmaðurinn Eyjólfur Ármannsson segir skort á góðum vegum, raforku og heilbrigðisþjónustu í Norðvesturkjördæmi. Þetta brennur að hans mati helst á fólki ásamt því að gera strandveiðar „frjálsar“.

„Það er að segja að smábátar geti haft fjórar rúllur á bát með sextán krókum og það verði frjálsar handfæraveiðar þar sem veiðiaðferðin, krókaveiðar, ógnar ekki fiskistofnum við landið,“ segir Eyjólfur.

Hann bætir við að þetta ætti að gilda að lágmarki 48 daga á sumrin, en hann vill helst að þetta gildi frá apríl fram í september eða í sex mánuði.

Eyjólfur vill tvær nýjar virkjanir í kjördæminu. Breyta þurfi friðunarskilmálum í Vatnsfirði svo hægt sé að byggja svokallaða Vatnsdalsvirkjun og þá vill hann að Hvalárvirkjun verði að veruleika.