Á Thorvaldsenssafninu í Kaupmannahöfn verður síðdegis í dag opnuð sýning þar sem sérstök áhersla er lögð á tengsl Bertels Thorvaldsens við Ísland. Sýningin er sett upp í tilefni þess að 150 ár eru liðin frá því að Kaupmannahöfn gaf Íslendingum bronsafsteypu af sjálfsmynd Thorvaldsens í styttuformi. Verkið, sem var fyrsta útilistaverkið í Reykjavík, var sett upp á Austurvelli árið 1875, en vék seinna fyrir styttu Jóns Sigurðssonar og var þá flutt í Hljómskálagarðinn. Thorvaldsen var danskur í móðurætt en íslenskur í föðurætt. Faðir hans var Gottskálk Þorvaldsson myndskurðarmeistari. Bertel nam myndlist í Kaupmannahöfn, varð einn þekktasti listamaður Evrópu og einn helsti fulltrúi nýklassíska stílsins í höggmyndalist. Þótt íslenskur væri að hluta kom hann aldrei til Íslands, en hélt þó alltaf tengslum við fólk hér.